Claude Monet

 

Claude Oscar Monet fæddist 14. nóvember 1840 og lést 6. desember 1926. Hann var franskur listmálari og einn af upphafsmönnum impressjónismans; listastefnu sem kom upp meðal listamanna í París á síðari hluta 19. aldar. Á myndum í anda impressjónisma er lögð áhersla á að sýna samspil ljóss og lita.

Hann fékkst fyrst og fremst við landslagsmálverk sem hann málaði undir berum himni og skoðaði mikið undur ljóssins. Hann varð meistari í meðferð ljóssins og brautryðjandi í litameðferð. Hann málaði oftast vatn og landslag.

Monet var giftur Camille Doncieux og áttu þau synina Jean og Michel. Eftir dauða Camille árið 1879 fór Monet að búa hjá Alice Hochedé sem sjálf átti 6 börn. Þau bjuggu í bænum Giverny en í garðinum þar málaði Monet margar frægustu myndir sínar, allt þar til hann dó 5. desember 1926, þá 86 ára gamall.

Húsið hans stóð á landi umlukið fallegri tjörn (frá ánni Epte) sem hann hóf að setja blóm frá Egyptalandi og Suður-Ameríku í, nágrönnum hans til mikils ama. En Monet hélt ótrauður áfram og sem betur fer, því þarna málaði hann í kringum 250 myndir af vatnaliljunum frægu sem teljast til hans frægustu og vinsælustu verka.

Árið 1874 komu nokkrir málarar saman í París, meðal annars Monet, Pissarro og Renoir, og stofnuðu bandalag listmálara. Bandalagið fékk heitið Impressjónistar eftir málverki Monets, Impressjónískt sólarlag (Impression: Sunrise).

Margir hafa spurt af hverju Monet og Renoir hófu að mála í impressjónískum stíl. Forsenda þess að ná frægð og frama sem listamaður var að koma myndum að á sýningunni Le Salon í París. Það er til marks um mikilvægi sýningarinnar að þeir listamenn sem var neitað um sýningarpláss urðu oft vondaufir um frama og sumir sviptu sig lífi. Þeir sem voru útilokaðir frá Le Salon urðu í kjölfarið reiðir út í listaheim Parísar sem þeim þótti einkennast af hroka og spillingu. Nokkrir listamenn tóku sig þá saman og héldu óhefðbundna málverkasýningu árið 1874. Margir þeirra komust síðar í hóp frægustu listamanna sögunnar: Claude Monet, Pierre-Auguste Renoir, Edgar Degas, Paul Cézanne, Berthe Morisot, Camille Pissarró, og Alfred Sisley. Paul Gauguin, Vincent van Gogh og Éduoard Manet komu síðar til liðs við hreyfinguna. Impressjónistarnir drógu nafn sitt af málverki Claude Monets "Impressjónískt sólarlag". Stíll impressjónista hefur stundum verið kallaður blæstíll á íslensku (Listasaga Fjölva) og blómaskeið hans var á árunum 1870-1885

Til gamans þá má finna leikna þætti á youtube um sögu Claude Monet. Þættirnir eru í þremur hlutum og fjalla um ævi Claude Monet og samferðamenn hans. Við mælum með að aðdáendur Monet og Renoir horfi á þessa fræðandi þætti. Sjá tengla inn á hvern hluta hér að neðan:


https://www.youtube.com/watch?v=_eBah6c5kyA
https://www.youtube.com/watch?v=SNcsxUY1TR8
https://www.youtube.com/watch?v=va507eoRSqc
utube.com/watch?v=_eBah6c5kyA

https://www.youtube.com/watch?v=SNcsxUY1TR8
https://www.youtube.com/watch?v=va507eoRSqc